Verður ekki svona auðvelt í allt sumar
Njarðvíkingar hafa heldur betur fengið fljúgandi start á Íslandsmótinu í 2. deild karla í knattspyrnu. Eftir tvær umferðir eru þeir með fullt hús stiga, hafa skorað níu mörk og haldið hreinu, fyrst unnu þeir Þrótt Reykjavík með fjórum mörkum gegn engu á útivelli og síðan var það Magni frá Grenivík sem Njarðvíkingar unnu 5:0. Hólmar Örn Rúnarsson og Bjarni Jóhannsson eru nú á sínu öðru ári með Njarðvík en á síðasta tímabili endaði liðið í sjötta sæti deildarinnar.
Víkurfréttir slógu á þráðinn til Hólmars Arnar [Bóa] og heyrðu hvernig hann metur stöðuna.
„Jú, þetta fer vissulega vel af stað,“ segir Bói, „en við vitum vel að þetta á ekki eftir að vera svona auðvelt í allt sumar. Báðir leikir hafa gengið fullkomlega upp af okkar hálfu og gaman að byrja svona.“
Svo er það Víkingur á Ólafsvík í næsta leik. Það verður ekki auðvelt verkefni, eða hvað?
„Nei, alls ekki. Gaui Þórðar og félagar hafa ekki farið eins vel af stað og við, erum með eitt stig eftir tvo leiki svo þeir vilja fara að sjá sigur. Annars er skemmtileg dagskrá framundan hjá okkur. Fyrst Víkingur á Ólafsvík, svo Keflavík í bikarnum og þá Reynir Sandgerði. Skemmtilegir næstu tíu dagar eða svo.“
Stóri og litli mætast í bikarslag
Talandi um það, hvernig leggst í þig að mæta Keflavík í bikarkeppninni?
„Mér líst bara vel á það,“ segir Bói sem lék vel yfir 200 leiki með Keflavík á árunum 2000 til 2018 en hann spilaði einnig með FH leiktímabilin 2011 til 2014. „Það verður bara gaman að mæta á minn gamla heimavöll.“
Hvernig meturðu möguleika ykkar á móti þeim?
„Þetta verður krefjandi en það er alltaf séns í fótbolta, vonandi náum við að stríða þeim eitthvað. Þeir hljóta að teljast sterkari aðilinn, á pappírunum allavega, en maður veit aldrei. Það má reikna með að sjálfstraust þeirra hafa beðið einhverja hnekki á meðan okkar er í botni – það gæti haft áhrif.“
Góðar viðbætur
Hafa orðið miklar breytingar á hópnum ykkar frá því í fyrra?
„Einhverjar breytingar eðlilega, við höfum fengið góðar viðbætur við leikmannahópinn. Magnús Þórir Matthíasson kom til okkar frá Reyni Sandgerði, við fengum Bessa Jóhannsson frá Gróttu og Oumar Diouck sem er búinn að vera með Fjarðabyggð síðustu tvö ár. Síðan erum við með tvo unga í láni, Viðar Má Ragnarsson frá Keflavík og Úlf Ágúst Björnsson frá FH. Svo gekk Hörður Sveinsson til liðs við okkur frá Reyni.“
Annars segir Bói að hópurinn sé að öður leyti sá sami og í fyrra. „Hreggviður Hermannsson ákvað að vera annað ár með okkur en hann var búinn að vera að þreifa fyrir sér hjá öðrum liðum svo ég er nokkuð sáttur við þann hóp sem við höfum.“
Það má segja að nýju mennirnir í lið Njarðvíkur sé vissulega ágætis viðbót við Njarðvíkurliðið en nýliðarnir hafa skorað sjö af níu mörkum Njarðvíkinga í 2. deild (Oumar Diouck þrjú, Úlfur Ágúst og Magnús Matthíasson tvö hvor).
Hvert er stefnan tekin á þessu tímabili?
„Ég fer í engar grafgötur með það að stefnan er tekin upp. Ég tek það samt aftur fram að þetta verður ekki svona auðvelt í allt sumar, deildin verður örugglega jöfn eins og síðustu ár – en stefnan er tekin á sæti í Lengjudeildinni að ári,“ segir Hólmar Örn að lokum og miðað við hvernig Njarðvíkingar hafa farið af stað þá gætum við vel verið að sjá þá fara upp í haust.